Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 236/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 236/2021

Fimmtudaginn 19. ágúst 2021

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. maí 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 10. febrúar 2021, um synjun á umsókn hans um afskrift á skuld.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 30. júní 2020, sótti kærandi um afskrift á skuld við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) á grundvelli 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 10. febrúar 2021, en kæranda um leið boðið að greiða 1.000.000 kr. í eingreiðslu eða með greiðslusamkomulagi til 18 mánaða og í kjölfarið yrðu eftirstöðvar kröfu á hendur honum felldar niður.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 9. maí 2021. Með bréfi, dags. 1. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 11. júní 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. júní 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 26. júlí 2021 og voru þær sendar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. júlí 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé fyrrum eigandi að húseign að B. Kærandi hafi sjálfur byggt húsið og hafi búið þar ásamt fjölskyldu sinni um árabil. Kærandi hafi því miður misst eignina á nauðungaruppboði árið 2013 eftir að hafa átt í greiðsluerfiðleikum um langt skeið eftir hrunið. Síðan þá hafi kærandi verið leigutaki í húsinu ásamt sambýliskonu sinni og X ára gömlum syni þeirra. Í júnílok 2020 hafi kærandi sótt um niðurfellingu á skuld að upphæð 21 milljón króna sem hafi glatað veðtryggingu við nauðungarsölu. Umsóknin hafi verið send rafrænt á netfang HMS þann 29. júní 2020 en ekkert svar hafi borist. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og símtöl hafi kærandi ekki fengið staðfestingu á móttöku umsóknar og stöðu fyrr en í október 2020. Kæranda hafi þá verið tjáð að enn væri nokkur bið. HMS hafi svo skilað niðurstöðu sinni 10. febrúar 2021 sem sé sjö mánaða málsmeðferðartími. Slík vinnubrögð séu HMS alls ekki til framdráttar og hafi valdið kæranda og fjölskyldu hans talsverðum óþægindum. HMS hafi hafnað umsókn kæranda á þeim rökum að hann hafi fjárhagslega getu til að greiða hluta af skuldinni. Kærandi sé X ára gamall byggingarverktaki með 35 ára starfsaldur í faginu. Nú sé svo komið að kærandi hafi ekki líkamlega burði til að sinna starfi sínu mikið lengur. Auk þess sé torvelt að finna nýtt starf þegar  svo stutt sé í eftirlaunaaldur. Kærandi og fjölskylda hans búi í C þar sem 14% atvinnuleysi ríki. Sambýliskona kæranda hafi misst starf sitt fyrir fjórum árum og hafi ekki verið svo lánsöm að fá starf síðan þá og sé því á atvinnuleysisbótum. Sonur þeirra búi hjá þeim og sæki háskóla á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi og sambýliskona hans geti ekki aðstoðað hann fjárhagslega eins og þau hafi viljað en hafi þó getað stutt hann með því að leyfa honum að búa heima án endurgjalds. Í dag sé leiguverð fyrir fasteignina 277.000 kr. á mánuði. Kærandi og sambýliskona hans hafi ekki fengið húsaleigubætur vegna þess að sonur þeirra sé talinn með í mengið. Húsaleigubætur teljist að hámarki til 40.000 kr. á mánuði sem sé dropi í hafið þegar um sé að ræða leiguverð að upphæð 277.000 kr. á mánuði. Að lokum tekur kærandi fram að HMS hafi ekki sinnt viðhaldi sem skyldi síðan árið 2013 sem sé þeim heldur ekki til framdráttar. Sá málflutningur HMS að kærandi hafi möguleika á að greiða hluta af skuld, sem hafi safnast eftir að hann hafi tapað húsi sínu sem hann hafi byggt sjálfur, sé fjarstæðukenndur og því kæri hann niðurstöðuna.

Kærandi gerir athugasemdir við greinargerð HMS. Í fyrsta lagi sé ekki tekið tillit til aldurs en kærandi sé að verða X ára gamall og eigi því ekki nema tæp X ár eftir á vinnumarkaði, að því gefnu að honum gefist líkamlegt þrek til að starfa sem sjálfstæður verktaki á því tímabili. Atvinnulíkur minnki með hækkandi aldri og X ár séu mjög knappur tími til að koma sér í betri stöðu. Aldur sé gríðarlega mikilvægur þáttur sem kærandi fari fram á að verði tekinn inn í myndina áður en úrskurðarnefnd velferðarmála taki afstöðu í málinu.

Í öðru lagi geri kærandi athugasemd við umfjöllun HMS um aðstæður kæranda og sambýliskonu hans. Niðurstaða HMS um að kærandi og sambýliskona hans séu tekjuhá og geti þannig greitt hluta af kröfu sem hafi myndast við nauðungaruppboð skýrist af eftirfarandi aðstæðum. Allt frá því að kærandi hafi misst hús sitt á nauðungaruppboði árið 2013 hafi hann átt í fjárhagsörðugleikum. Árið 2019 hafi kærandi leitað til umboðsmanns skuldara til að fá aðstoð við að greiða úr þeim fjárhagsvanda sem tiltekinn starfsmaður umboðsmanns skuldara geti vottað. Þar hafi kæranda meðal annars verið ráðlagt að sækja um niðurfellingu á þeirri skuld sem hér um ræði. Eins og starfsmaður umboðsmanns skuldara geti líka vottað hafi kærandi undanfarin tvö ár lagt gríðarlega mikið á sig til að vinna niður skuldir sem skýri þær miklu tekjur sem hafi verið tíundaðar í greinargerð HMS. Sú niðurstaða HMS að kæranda og sambýliskonu hans beri að greiða hluta af skuldinni sem hér um ræði framlengi aðeins því ástandið og minnki möguleikann á að þeim takist að komast á beinu brautina fyrir eftirlaunaaldur. Hvað varði tekjur sambýliskonu kæranda hafi fyrirtækið sem hún eigi hlut í þurft að leggja niður starfsemi í mars 2020 vegna skyndilegs tekjufalls og hafi sambýliskona hans farið á atvinnuleysisbætur í kjölfarið. Áður hafi hún verið í 50% starfi hjá fyrirtækinu, með 149.000 kr. í tekjur á mánuði eftir skatt. Auk þess hafi hún starfað hjá D með rétt rúmar 300.000 kr. í tekjur á mánuði, í tvo mánuði á ári. Þótt greinargerð HMS taki fram að sambýliskona kæranda hafi tekjur megi segja að þessar tekjur eigi býsna langt í land með að teljast nægar tekjur til framfærslu, hvað þá til að greiða niður fleiri skuldir.

Í þriðja lagi geri kærandi athugasemdir við mat HMS á atvinnuástandi á Suðurnesjum. Greinargerð HMS taki ekki tillit til þess að sambýliskona kæranda sé ennþá atvinnulaus. Það gefi 240.000 kr. í ráðstöfunartekjur í dag en það hafi verið 220.000 kr. árið 2020. Sambýliskona kæranda sé á X aldursári og því minni líkur á að hún fái starf sökum aldurs. Atvinnuleysi á Suðurnesjum hafi verið 13,7% í júní 2021 og sé mun meira meðal kvenna en karla, eða 16,6%. Í ljósi þessara staðreynda séu væntingar HMS til þess að sambýliskona kæranda fái starf á næstu tveimur til þremur árum og sú spá HMS að atvinnuástand á Suðurnesjum fari batnandi, illa ígrundaðar og ógætilegar í garð sambýliskonu kæranda. Slíkar fullyrðingar séu byggðar á sandi og sæmi að mati kæranda ekki annars ágætum vinnubrögðum HMS.

Í fjórða lagi bendi kærandi á að til lengri tíma litið standi hugur hans og sambýliskonu til að kaupa húsið aftur. Vegna þessa hafi kærandi átt í samskiptum við Bríeti og HMS. Bankar og lífeyrissjóðir vilji ekki veita þeim lán vegna málsins sem hér sé til meðferðar. Því hafi þau leitað til HMS til að fá lán fyrir húsinu eftir að hafa fengið kauptilboð frá Bríeti. Ástæða þess hafi meðal annars verið sú að HMS sé heimilt að veita undanþágu frá framfærsluviðmiðum, sem þau hafi hugsað fyrir sambýliskonu kæranda. Eitt af skilyrðum HMS fyrir lánveitingu sé að fasteignamat sé ekki meira en 50 miljónir, en fasteignamat hússins sé 62 miljónir. Í samhengi við gangverð fasteignamats í dag sé 50 miljóna króna hámark engan veginn gert fyrir fólk í þeirra stöðu og geri út um mögulega lánveitingu til að kaupa húsið. Kærandi hafi farið fram á endurskoðun fasteignamats hjá Bríeti en það mál hafi verið til skoðunar í rúmlega hálft ár og enn ekki fengist niðurstaða. Miðað við þessa upphæð sé ljóst að HMS láni aðeins fyrir fyrstu kaupum, ekki fyrir fyrrverandi eigendur sem rói að því öllum árum að kaupa húsið sitt til baka.

Kærandi fari þess á leit við úrskurðarnefnd velferðarmála að taka framangreind atriði til greina. Sú niðurstaða HMS að synja kæranda og sambýliskonu hans um niðurfellingu torveldi þeim þá fyrirætlan að kaupa húsið sitt aftur. Kærandi sé þakklátur fyrir að þau hafi getað búið áfram í húsinu og vegna þessa hafi kærandi horft í gegnum fingur sér hvað varðar ástand hússins, sem þó sé stórlega ábótavant.

Ein miljón kunni að hljóma lág upphæð í stóra samhenginu, en þegar samhengið sé að maður missi hús sitt í hruninu, sem hann hafi byggt sjálfur og sé síðan gert að greiða 21 miljón króna vegna eftirstæðrar kröfu, geri eina miljón að þungri byrði. Kærandi hafi lagt gífurlega mikið á sig til að vinna sig út úr fjárhagsörðugleikum til að geta keypt húsið aftur sem hann hafi byggt sjálfur sem ungur húsasmíðameistari. Þó að bakslag á borð við niðurstöðu HMS hljómi eins og einfalt verkefni sé það enn eitt höggið og ljóst að þrek kæranda sé á þrotum. Það sé einlæg von kæranda að úrskurðarnefnd velferðarmála taki málið fyrir heildstætt og meti aðstæður á forsendum aldurs kæranda og sambýliskonu hans og aðstæðna.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að kærandi hafi lagt inn umsókn, dags. 29. júní 2020, um að skuld við ÍL-sjóð yrði afskrifuð á grundvelli 6. gr. reglugerðar nr. 359/2020 um meðferð krafna sem glatað hafa veðtryggingu. Með umsókninni hafi meðal annars fylgt afrit af skattframtölum síðastliðinna þriggja ára og yfirlit úr staðgreiðsluskrá RSK. Umsóknin hafi verið til meðferðar hjá lánasviði sem hafi farið yfir fyrirliggjandi gögn sem hafi verið lögð til grundvallar í málinu. Tillaga lánasviðs hafi síðan verið lögð fyrir lánanefnd HMS um afgreiðslu umsóknar kæranda. Á fundi lánanefndar þann 10. febrúar 2021 hafi verið samþykkt tillaga lánasviðs um að synja umsókn kæranda um niðurfellingu á skuld á þeirri forsendu að tekjur væru yfir tekjumörkum sem fram komi í skilyrðum fyrir niðurfellingu, sbr. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010. Hins vegar hafi nefndin heimilað að samið yrði um niðurfellingu á skuldinni, sbr. 6. mgr. 6. gr. Á grundvelli greiðslugetu kæranda hafi verið lagt til að honum yrði boðið að greiða 1.000.000 kr., annaðhvort í eingreiðslu eða með greiðslusamningi til allt að 18 mánaða og yrðu eftirstöðvar kröfunnar felldar niður að greiðslu lokinni. Kæranda hafi verið synjað með bréfi, dags. 10. febrúar 2021. HMS fellst á með kæranda að óþarflega langur tími hafi liðið frá því að umsókn hafi verið lögð fram þar til ákvörðun hafi legið fyrir. Stofnunin telji að skýringar á drættinum megi rekja til skipulagsbreytinga á vinnslu umsókna og harmi stofnunin þann drátt sem hafi orðið á afgreiðslunni. Þrátt fyrir það sé ekki hægt að sjá að sá tími sem hafi liðið frá því að umsókn hafi verið lögð inn þar til ákvörðun hafi verið tekin hafi haft áhrif á efnislega niðurstöðu stofnunarinnar.

HMS tekur fram að fasteign kæranda hafi verið seld nauðungarsölu í janúar 2013. Íbúðalánasjóður (ÍLS) hafi verið hæstbjóðandi á nauðungarsölunni og í kjölfarið leyst fasteignina til sín. Á fasteigninni hafi verið áhvílandi lán frá ÍLS en á uppboðsdegi hafi lánið verið í vanskilum frá 9. mars 2009. Í samræmi við 57. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 hafi ÍLS fengið löggiltan fasteignasala til að skoða og verðmeta fasteignina. Samkvæmt verðmatinu hafi markaðsverð fasteignarinnar á uppboðsdegi verið 23.500.000 kr. Í kjölfar nauðungarsölunnar hafi myndast eftirstæð krafa, eða svokallað glatað veð, að fjárhæð 21.711.888 kr. Stofn glataðs veðs sé mismunur á heildarkröfu Íbúðalánasjóðs við nauðungarsöluna ásamt kostnaði við uppboð og verðmat. Kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 4. júlí 2013, um skuldastöðu eftir nauðungarsöluna og jafnframt að sjóðurinn myndi ekkert aðhafast við innheimtu kröfunnar. Þá hafi kærandi verið upplýstur um að hægt væri að greiða inn á kröfuna og að heimilt væri að koma til móts við hann við hverja greiðslu með því að fella niður af kröfunni til viðbótar sömu fjárhæð og væri greidd, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 359/2010. Núverandi eigandi eignarinnar sé Leigufélagið Bríet, en félagið sé sjálfstætt starfandi leigufélag í eigu HMS.

Af hálfu HMS sé byggt á því að málsmeðferðin hafi verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að ákvörðunin hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum og hafi verið gerð í samræmi við ákvæði laga um húsnæðismál nr. 44/1998, reglugerð nr. 359/2010 og reglur stjórnar HMS um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða.

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998 sé stjórn heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins sem glatað hafi veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar. Um kröfu ÍLS fari samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna sem glatað hafi veðtryggingu, sbr. reglugerð nr. 534/2015 og nr. 1138/2018. Reglugerðin sé sett með heimild í 47. og 50. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar sé heimilt að liðnum þremur árum frá sölu fasteignar skuldara að afskrifa kröfu sem glatað hafi veðtryggingu. Í 2. mgr. 6. gr. séu tilgreind skilyrði fyrir slíkri afskrift:

  1. Eignir umfram skuldir séu ekki meiri en 6.500.000 kr. hvort sem um er að ræða einstakling eða hjón/sambúðarfólk.
  1. Tekjur á ársgrundvelli séu ekki hærri en 3.622.600 kr. fyrir einstakling eða 4.791.180 kr. fyrir hjón eða sambúðarfólk, að viðbættum 570.000 kr. fyrir hvert barn á framfæri skuldara yngra en 20 ára.

Heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. ef sérstakar málefnalegar ástæður liggi fyrir. Í kafla 11 í reglum stjórnar um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða sé fjallað um afgreiðslu umsókna. Þar komi fram að eignir og tekjur umsækjanda skuli byggja á meðaltali síðustu þriggja ára samkvæmt skattframtali en heimilt sé að byggja á samtímagögnum ef tilefni þyki til. Við meðferð málsins hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun farið yfir fyrirliggjandi gögn og forsendur sem hafi legið fyrir við mat á því hvort kærandi uppfylli framangreind skilyrði fyrir niðurfellingu glataða veðsins. Við útreikning á tekjum hafi skattframtöl vegna áranna 2018 til 2020 verið lögð til grundvallar.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá séu tekjur kæranda reiknað endurgjald við eigin atvinnurekstur, en hann sé að eigin sögn byggingarverktaki. Í greiðslumatinu sé ekki tekið tillit til hreinna tekna af atvinnurekstrinum, en á árinu 2020 hafi tekjurnar numið 685.000 kr., eða að meðaltali 57.000 kr. á mánuði. Tekjur sambýliskonu kæranda á viðmiðunartímabilinu séu frá D og Atvinnuleysistryggingasjóði. Að sögn kæranda fái hann ekki húsnæðisbætur þar sem tekið sé tillit til eigna/tekna allra heimilismanna. Ef miðað væri við að kærandi og sambýliskona hans byggju ein á heimilinu gætu áætlaðar húsnæðisbætur numið allt að 27.000 kr. á mánuði. Samkvæmt síðasta skattframtali séu skuldir umfram eignir, en aðallega sé um að ræða skuldir við Menntasjóð námsmanna og Skattinn. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sé óumdeilt að tekjur á ársgrundvelli séu yfir skilgreindum tekjumörkum samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 6. gr. Það hafi því verið niðurstaða lánanefndar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir niðurfellingu og af þeirri ástæðu bæri að synja umsókninni.

Einnig hafi verið lagt heildstætt mat á hagi kæranda og hvort tilefni væri til að afskrifa skuldina á grundvelli málefnalegra sjónarmiða, sbr. 6. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010. Við matið hafi verið litið til fjárhagsgetu, fjölskylduaðstæðna, framfærslubyrðar og haga kærenda. Geta kærenda til að afla tekna sé þokkaleg og reikna megi með að atvinnuhorfur fari batnandi. Kærandi starfi sem byggingarverktaki og sambýliskona hans hjá D. Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti hafi sambýliskona kæranda fengið greiðslur frá Atvinnuleysistryggingasjóði hluta ársins 2020. Þá megi benda á að sambýliskona kæranda sé eigandi til helminga að tilteknu samlagsfélagi og hún hafi á síðustu árum haft tekjur frá félaginu. Kærandi sé ekki með börn á sínu framfæri og búi ásamt sambýliskonu sinni og X ára syni þeirra í leiguhúsnæði. Áætluð mánaðarleg greiðslugeta að teknu tilliti til framfærslu og húsaleigu sé um 85.000 kr. Það hafi verið niðurstaða lánadeildar HMS að ekki væri tilefni til að afskrifa skuldina. HMS gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 10. febrúar 2021 um synjun á umsókn kæranda um afskrift á skuld við sjóðinn.

Um afskriftir veðkrafna fer eftir 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laganna er heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur stofnunarinnar sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs, sem glatað hafa veðtryggingu, er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa slíkar kröfur að liðnum þremur árum frá sölu fasteignar skuldara. Í 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að skuldari geti hvenær sem er greitt inn á kröfu sem glatað hefur veðtryggingu og að Íbúðalánasjóði sé heimilt að koma til móts við skuldara við hverja greiðslu með því að fella niður af kröfunni til viðbótar sömu fjárhæð og greidd hafi verið. Með því sé krafa að fullu greidd þegar skuldari hafi greitt helming hennar.

Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar eru tilgreind skilyrði fyrir afskrift á kröfu sem glatað hefur veðtryggingu. Þar segir:

  1. Eignir umfram skuldir séu ekki meiri en 6.500.000 kr. hvort sem um er að ræða einstakling eða hjón/sambúðarfólk.
  2. Tekjur á ársgrundvelli séu ekki hærri en 3.622.600 kr. fyrir einstakling eða 4.791.180 kr. fyrir hjón eða sambúðarfólk, að viðbættum 570.000 kr. fyrir hvert barn á framfæri skuldara yngra en 20 ára.

Í 6. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. ef sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir. Meta skal fjárhagsstöðu skuldara með framkvæmd greiðsluerfiðleikamats og heimilt er að semja um niðurfellingu á grundvelli niðurstöðu mats á greiðslugetu. Í kafla 11 í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða er fjallað um afgreiðslu umsókna. Þar segir í grein 11.1 að eignir og tekjur umsækjanda skuli byggðar á meðaltali síðustu þriggja ára samkvæmt skattframtali en heimilt sé að byggja á samtímagögnum ef greiðsluerfiðleikanefnd þyki tilefni til. Við greiðsluerfiðleikamat sé miðað við dæmigert viðmið framfærslu, útgefnu af velferðarráðuneyti. Rekstrarkostnaður fasteignar og bifreiðar skuli metinn með sama hætti og gert sé í greiðslumati vegna nýrra lána. Ekki sé tekið mið af greiðslubyrði skuldbindinga vegna LÍN. Þá sé heimilt að horfa ekki til greiðslubyrðar skuldbindinga sem telja verði óhóflegar í ljósi fjárhagsstöðu viðkomandi. Í grein 11.2 kemur fram að með umsókn skuli fylgja skattskýrslur síðustu þriggja ára og afrit af launaseðlum síðustu þriggja mánaða. Heimilt sé að kalla eftir frekari gögnum ef ástæða þyki til. Umsóknin fari til vinnslu hjá starfsmanni á viðskiptasviði sem stilli upp erindi og leggi fyrir greiðsluerfiðleikanefnd á þar til gerðu eyðublaði með rökstuddri tillögu.

Í gögnum málsins liggja fyrir upplýsingar um tekjur kæranda og sambýliskonu hans. Samkvæmt þeim eru tekjur þeirra á ársgrundvelli yfir skilgreindum tekjumörkum 2. tölul. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010, sbr. 4. mgr. sömu greinar, og því eru skilyrði fyrir niðurfellingu kröfunnar ekki uppfyllt. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur vísað til þess að einnig hafi verið lagt heildstætt mat á hagi kæranda og hvort tilefni stæði til að afskrifa skuldina á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Við það mat hafi verið litið til greiðslugetu, fjölskylduaðstæðna, framfærslubyrðar og haga kærenda. Stofnunin hafi talið getu kæranda og sambýliskonu hans til að afla tekna þokkalega, þau séu ekki með börn á framfæri og búi í leiguhúsnæði. Áætluð mánaðarleg greiðslugeta, að teknu tilliti til framfærslu og húsaleigu, sé um 85.000 kr.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið gögn málsins og telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við framangreint mat stofnunarinnar en það fór fram miðað við aðstæður kæranda á þeim tíma sem umsókn var lögð fram. Synjun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á umsókn kæranda um niðurfellingu á skuld er því staðfest.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 10. febrúar 2021, um synjun á umsókn A, um afskrift á skuld, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum